Sport

Shaq til Miami Heat

Miðherjinn tröllvaxni Shaquille O´Neal gekk í gær í raðir Miami Heat í NBA-deildinni en hann hefur leikið með Los Angeles Lakers síðan 1995 og unnið þrjá meistaratitla. Lakers fær þrjá sterka leikmenn, Lamar Odom, Caron Butler og Brian Grant, frá Miami auk valréttar í framtíðinni í skiptum fyrir hinn 32 ára gamla O´Neal, sem var víst búinn að fá nóg af því að spila með Kobe Bryant hjá Lakers. O´Neal átti eftir tvö ár af samningi sínum við Lakers og yfirtekur Miami Heat samninginn sem gefur honum 59 milljónir dollara (4,3 milljarða í aðra hönd). O´Neal hefur skorað 27,1 stig, tekið 12,1 frákast og varið 2,6 skot að meðaltali á tólf ára ferli sínum í deildinni sem hófst með Orlando Magic árið1992. Hann hefur einu sinni verið valinn besti leikmaður deildarinnar, þrisvar sinnum besti leikmaður úrslitakeppninnar og tíu sinnum verið valinn í Stjörnuleik NBA-deildarinnar. Tvær helstu stjörnur Miami sem eftir eru, Eddie Jones og Dwayne Wade. voru himinlifandi eftir að ljóst var að Shaq kæmi til liðsins. "Þetta er ótrúlegt. Það er draumi líkast að fá jafngóðan leikmann til liðsins og það er ljóst að það vilja allir spila með þessu liði á komandi tímabili," sagði Jones og Wade, sem var frábær á sínu fyrsta ári í fyrra, bætti við að hver myndi ekki vilja spila með Shaq. "Hann er enn besti leikmaðurinn í deildinni," sagði Wade.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×