Sport

Crespo til AC Milan

Argentínski framherjinn Hernan Crespo var í gær lánaður til ítölsku meistaranna í AC Milan í eitt ár. Crespo er ekki ókunnugur borginni en hann lék með Inter Milan áður en hann var keyptur til Chelsea fyrir síðasta tímabil. Crespo, sem hefur átt erfitt uppdráttar hjá Chelsea og mætti of seint til sumaræfinga hjá félaginu, sagðist vera himinlifandi með að vera kominn aftur til Ítalíu. Carlo Ancelotti, þjálfari AC Milan, sem stýrði Crespo hjá Parma á árunum 1998 til 2000, sagði að þetta væri það sem allir hefðu viljað og að koma Crespos væri sannarlega gjöf til stuðningsmanna félagsins. Hörð samkeppni bíður Crespos hjá AC Milan en fyrir eru úkraínski sóknarmaðurinn Andrei Shevchenko, Daninn Jon Dahl Tomasson og Filippo Inzaghi. "Ég veit að það verður ekki auðvelt að komast í liðið því þar eru fyrir þrír frábærir framherjar sem hafa sannað getu sína en ég er í toppformi og hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni," sagði Crespo. Nú þegar Crespo er farinn frá Chelsea má fastlega búast við því að Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, geri allt sem í hans valdi stendur til að fá Didier Drogba frá Marseille en sá er metinn á 26 milljónir punda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×