Sport

Jói Kalli ekki til Rangers

Jóhannes Karl Guðjónsson, knattspyrnumaður hjá Real Betis á Spáni, mun að öllum líkindum ekki vera á leið til skoska stórveldisins Glasgow Rangers. Breskir fjölmiðlar voru duglegir að bendla Jóhannes við hin ýmsu lið í síðustu viku og bar þar hæst nafn Rangers. Heimildamenn Fréttablaðsins í Skotlandi segja hinsvegar að Rangers hafi réttilega haft spurn af stöðu mála hjá Jóhannesi og Betis, en hafi fljótlega beint sjónum sínum annað og misst áhugann á miðjumanninum baráttuglaða. Real Betis hefur samþykkt að sleppa Jóhannesi frá félaginu án greiðslu en samt sem áður er ekki búið að ganga frá öllum atriðum varðandi brottför Jóhannesar frá félaginu. Jóhannes vill fá borgaðan hluta af þeim þremur árum sem hann á eftir af samningi sínum við félagið en forráðamenn Betis eru ekki reiðubúnir að gangast við því. Jóhannes segist hins vegar sjálfur ætla að slaka verulega á kröfum sínum fari svo að hann fái freistandi tilboð annars staðar frá, en ljóst er að það verður ekki frá Rangers eins og rætt hafði verið um. Mörg félög hafa borið víurnar í Jóhannes að undanförnu, m.a. lið frá Hollandi og Þýskalandi sem og í ensku 1. deildinni, en að sögn Jóhannesar hafa engin formleg tilboð boðist ennþá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×