Sport

Þeir eru miklu betri núna

Shelbourne hefur áður komið til Íslands vegna þátttöku í Evrópukeppni, það var árið 1995 þegar liðið mætti gullaldarliði Skagamanna í forkeppni UEFA-bikarsins þáverandi. Það var hins vegar engin frægðarför því firnasterkt Skagalið sigraði bæði heima og að heiman með sömu markatölu, 3-0. Arnar Gunnlaugsson, núverandi sóknarmaður KR, var þá í eldlínunni með ÍA og skoraði meðal annars eitt marka liðsins. Hann býst við erfiðari leikjum í þetta skiptið. "Ég man vel eftir þessum leikjum. Við vorum á rosalegri siglingu hér heima þá, með mjög vel mannað lið og Shelbourne átti aldrei séns gegn okkur. En mér skilst að þeir séu orðnir miklu sterkari núna. Leikmenn liðsins 1995 voru áhugamenn rétt eins og við en nú er þetta orðið miklu meira alvöru hjá þeim," segir Arnar, sem hefur jafnað sig af smávægilegum ökklameiðslum og verður væntanlega í byrjunarliði KR í kvöld. "Ég náði að setja mark á þá í leiknum ytra á sínum tíma og vonast auðvitað til að endurtaka leikinn núna. Skrokkurinn var þó í nokkuð betra standi þá. Aðalmálið hjá okkur er að fá ekki á okkur mark og sjá hvert það fleytir okkur. Það verður svo bara að koma í ljós hvernig leikurinn þróast. Við erum mjög bjartsýnir, teljum okkur hafa verið heppnir með andstæðinga og þekkjum þennan breska fótbolta ágætlega. Þetta er allavega mun skárra en að mæta liði frá Aserbaídsjan eða eitthvað slíkt," segir Arnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×