Sport

Sveinn náði ekki metinu

"Það voru mér vonbrigði að þrír sterkir hlauparar hættu við og það minnkaði möguleika mína á að slá Íslandsmetið. Mig vantaði meiri keppni til að halda hraðanum lengur í hlaupinu," sagði Sveinn Margeirsson, Skagfirðingurinn knái sem sigraði örugglega í 5000 metra hlaupinu en vantaði nokkuð upp á að slá Íslandsmet Jóns Diðrikssonar í greininni. Það er við aðstæður eins og voru á Sauðárkróki um helgina, þegar veðrið og stemningin er til staðar, sem frjálsíþróttamenn vilja setja met og þótt Sveinn hlypi glæsilega og að því er virtist áreynslulaust dugði það ekki til að takmarkið næðist. Sveinn var fánaberi Skagfirðinga við setningu mótsins á föstudagskvöld og framkvæmdi fánakveðju að athöfn lokinni, en setningarathöfnin heppnaðist frábærlega vel. Þar sýndi m.a. danskur fimleikaflokkur listir sínar við aðstæður sem væntanlega hefðu ekki getað verið betri í risasýningarhöllum. Fjöldi fólks fylgdist með af brúnum Nafanna fyrir ofan íþrótta- og sýningarsvæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×