Sport

Argentínumenn í hættu

Argentínumenn eiga á hættu á að komast ekki áfram í átta liða úrslit Suður-Ameríku bikarsins eftir 0-1 tap fyrir Mexíkó í annarri umferð riðilsins aðfaranótt sunnudagsins. Argentínumenn, sem unnu Ekvador, 6-1, í fyrsta leik sínum, þurfa nú sigur á nágrönnum sínum Úrúgvæ til að komast áfram í næstu umferð. Úrúgvæ vann Ekvador, 2-1, í hinum leik riðilsins og er á toppi riðilsins ásamt Mexíkó með fjögur stig en Argentínumenn hafa þrjú. Það var Ramon Morales sem skoraði sigurmark Mexíkó með glæsilegri aukaspyrnu eftir aðeins átta mínútna leik. Þrátt fyrir að argentínska liðið hafi mikið verið með boltann og oft sýnt skemmitleg tilþrif út á velli tókst þeim ekki að brjóta á bak aftur sterka vörn Mexíkó. Javier Saviola sem skoraði þrennu í fyrsta leiknum gegn Ekvador var í strangri gæslu og Argentínumenn fundu engar leiðir fram hjá hinum unga Oswaldo Sanchez í marki Mexíkó. Diego Forlan hjá Manchester United og Carlos Bueno skoruðu mörk Úrúgvæ en Franklin Salas jafnaði í millitíðinni fyrir lið Ekvador sem er úr leik í keppninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×