Sport

Stórmeistarajafntefli í Vesturbæ

Fylkismenn gerðu fína ferð í Frostaskjólið í gær og náðu 1–1 jafntefli í leik sem var í heildina heldur bragðdaufur. Jafnteflið þýðir að gjáin á milli liðanna er enn sú sama – sex stig – og Fylkismenn sem fyrr á toppnum með 19 stig. Þegar aðeins átta leikir eru eftir af Landsbankadeildinni eru KR-ingar aðeins með 13 stig og eru hreinlega að falla á tíma ef þeir ætla sér að verja íslandsmeistaratitil sinn. Fylkismenn hljóta aftur á móti að teljast meistaraefni. Að ná jafntefli í fjarveru nokkura lykilmanna er fínt afrek og þeir hafa löngu sýnt að seiglan sem býr í liðinu er mikil þrátt fyrir erfiða leikjatörn á síðustu vikum. KR-ingar hófu leikinn af miklum krafti í gær og höfðu á þrjú fín færi áður en Arnar Jón Sigurgeirsson kom þeim verðskuldað yfir strax á 12. mínútu. Þá fylgdi hann eftir máttlitlu skoti Kjartans Henry Finnbogasonar sem Bjarni Þórður Halldórsson í markinu náði ekki að halda. Klaufalegt hjá markmanninum bráðefnilega, en hann átti eftir að kvitta fyrir mistökin síðar í leiknum með góðri markvörslu. Eftir markið var eins og leikmenn KR væru hreinlega orðnir saddir og Fylkismenn sóttu í sig veðrið. A markamínútunni 43. náði Sævar Þór Gíslason að jafna metin fyrir gestina með fallegu marki. Sævar var þá með boltann á vinstri kanti og átti það sem virtist vera fyrirgjöf en endaði á því að vera hið fínasta skot – boltinn sveif yfir Kristján Finnbogason í markinu og hafnaði í fjærhorninu. Síðari hálfleikur var tíðindalítill og undarlegt að sjá KR-inga jafn máttlausa þrátt fyrir að þurfa nauðsynlega á sigri að halda. Þeir náðu reyndar upp ágætri pressu síðasta stundarfjórðunginn en Fylkismenn héldu út og sitja áfram einir á toppnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×