Sport

Eyjólfur kyndilberi á landsmóti

Óskabarn Skagafjarðar, knattspyrnukappinn Eyjólfur Sverrisson, var kyndilberi og trendraði landsmótseldinn á setningarhátíð Landsmótsins á Sauðárkróki í gærkvöld. Þriðji keppnisdagur hófst í morgun með kyrru og stilltu veðri. Landsmótsnefnd hélt landsmótsnefndarfund í morgunsárið. Engin mál voru á dagskrá nefndarinnar. ,,Þetta er ótrúlegt, það er ekkert um að tala, engin vandamál, allt hefur gengið upp samkvæmt áætlun," sagði Björn B. Jónsson formaður UMFÍ á heimasíðu mótsins. Keppni er lokið í tíu greinum en undanúrslit og úrslit hefjast í dag í mörgum greinum. Á frjálsíþróttavellinum verður dagur hlaupabrautarinnar. Keppni í knattspyrnu, sundi, golfi, skotfimi, handbolta, hestaíþróttum, boccia, bridds, körfubolta, dansi, blaki og fimleikum heldur áfram í dag. Þá verða hinar sívinsælu starfsíþróttir á sínum stað en keppni í æskuhlaupi, fjallahlaupi, dráttarvélaakstri, pútt eldri ungmennafélaganna og starfshlaupi fer fram víða um mótssvæðið. Að lokinni keppni í dag verður kvöldvaka, þar sem meðal annars Stuðmenn, Álftagerðisbræður, Solla Stirða, Auddi og Sveppi og margir fleiri stíga á stokk og skemmta gestum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×