Sport

Þrír Víkingssigrar í röð

Víkingar unnu sinn þriðja sigur í röð í Landsbankadeild karla og komust upp úr fallsæti í fyrsta sinn í sumar eftir 1–0 sigur á Grindavík í Víkinni í gær. Varnarmaðurinn Grétar Sigurðsson skoraði sitt þriðja mark í fjórum leikjum með skalla af stuttu færi eftir aukaspyrnu Vilhjálms Vilhjálmssonar. Öll mörk Grétars hafa komið með skalla eftir föst leikatriði. Víkingar spiluðu manni færri síðustu 30 mínútur leiksins eftir að Sölvi Geir Ottesen fékk sitt annað gula spjald fyrir að stöðva boltann með hendinni. Útsendarar Djurgarden fengu því ekki að sjá eins mikið af Sölva og þeir höfðu ætlað fyrirfram. Víkingar létu brottrekstur Sölva hinsvegar ekkert á sig fá og Grindvíkingar fengu engan tíma til athafna sig frekar en þegar Víkingar voru með fullskipað lið. Vilhjálmur Vilhjálmsson átti meðal annars tvö sláarskot í seinni hálfleik, annað þeirra úr aukaspyrnu frá miðju vallarins. Grétar Sigurðsson átti mjög góðan leik og var kjölfestan í varnarleik Víkinga í seinni hálfleik. Víkingar unnu ekki leik í fyrstu sex umferðunum og staðan var ekki árennileg en með þremur sigrum í röð eru þeir búnir að koma sér upp úr botnsætinu og sanna að þeir eiga heima meðal tíu bestu liða landsins. Rautt spjald Sölva þýðir þó að þeir verða án Sigurðar Jónssonar þjálfara, Sölva og Kára Árnasonar sem verða allir í leikbanni í næsta leik gegn Fram. Grindvíkingar eru ekki að spila sannfærandi um þessar mundir og eiga enn eftir að vinna á útivelli. Tilkoma Momir Mileta sem spilaði sinn fyrsta virðist engu breyta þar um, hann byrjaði ágætlega en missti fljótt taktinn. Víkingur – Grindavík 1-0 1–0 Grétar Sigfinnur Sigurðsson 37. Dómarinn Gísli Hlynur Jóhannsson Sæmilegur Bestur á vellinum Grétar Sigurðsson Víkingi Tölfræðin Skot (á mark)  10–10 (6–3) Horn 3–2 Aukaspyrnur fengnar 16–27 Rangstöður 6–5 Mjög góður Grétar Sigfinnur Sigurðsson Víkingi Góðir Steinþór Gíslason Víkingi Haukur Armin Úlfarsson Víkingi Vilhjálmur Vilhjálmsson Víkingi Paul McShane Grindavík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×