Innlent

Þriggja ára fangelsi

Maður hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands fyrir að misnota kynferðislega tvær dætur sínar og vinkonu annarrar þeirra. Honum var að auki gert að greiða stúlkunum skaðabætur og til að greiða allan málskostnað. Dætur mannsins eru fæddar 1984 og 1988 og vinkonan árið 1989. Brotin gegn eldri dótturinni áttu sér stað árin 1996 og 1997 þegar hún var 12 og 13 ára gömul, þeirri yngri árið 2002 þegar hún var 14 ára og gegn vinkonunni árið 2003. Maðurinn hafði samræði við eldri dóttur sína, káfaði á yngri dóttur sinni og reyndi að hafa samræði við vinkonu hennar. Í dómnum segir að maðurinn hafi með háttsemi sinni brotið alvarlega gegn skyldum sínum sem foreldri og uppalandi. Þá hafi hann brugðist trausti vinkonu yngri dóttur sinnar á mjög grófan hátt. Stúlkan hafi verið barn í hans umsjá þegar hann braut á henni. Í dómnum segir að brot mannsins séu alvarleg og viðbúið að þau hafi haft og komi til með að hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu stúlknanna. Miskabætur eldri dótturinnar voru taldar hæfilegar 700 þúsund krónur, yngri dótturinni voru dæmdar 100 þúsund krónur og vinkonu hennar 400 þúsund krónur.  Dóminn kváðu upp Hjörtur O. Aðalsteinsson, Hjördís Hákonardóttir og Símon Sigvaldason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×