Innlent

Rauður úrgangur í Elliðaá

Elliðaárnar við Geirsnef urðu heldur óhugnanlegar á að líta í dag. Bilun í setþróm steypustöðvarinnar BM-Vallár olli því að torkennilegur rauður vökvi barst í árnar. Efnið reyndist skaðlaust en ýmsum brá við þessa sjón. Efnið sem barst í Elliðaárnar er svokallað járnoxíð, en það er rautt efni sem steypustöðin BM-Vallá notar í steypu við framleiðslu á hellum. Að sögn Lúðvíks Gústafssonar, hjá heilbrigðiseftirlitinu í Reykjavík, fór eitthvað úrskeiðis í setþróm steypustöðvarinnar og af þeim sökum barst efnið í árnar. Þær voru heldur ógeðslegar á að líta á þeim stað sem óhappið var, en járnoxíð er þó skaðlaust og skolast burt af sjálfu sér. Nokkur sjónmegnun hlaust af þessu og brá ýmsum, sem staddir voru á svæðinu í göngutúr. Fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins fór á staðinn til að kanna málið. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem óhapp af þessu tagi verður, en steypustöðin vinnur að því að koma sér upp búnaði til að koma í veg fyrir slíkt. Fyrirhugað er að koma upp sérstakri settjörn, sem agnir eiga að setjast í, og úr henni á að fara hreint vatn. Samráðshópur um Elliðaárnar hefur vakið athygli á þessum vanda og þrýst á að tekið verði á honum, og hefur heilbrigðiseftirlitið veitt BM-Vallá, ásamt örðum fyrirtækjum á svæðinu, frest fram á sumar til að koma sér upp búnaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×