Sport

Sharapova og Federer sigruðu

Það urðu heldur betur óvænt tíðindi í úrslitaleik kvenna á opna Wimbledon-mótinu í tennis en þá gerði rússneska unglingstúlkan, Maria Sharapova, sér lítið fyrir og lagði að velli sigurvegara mótsins síðustu tveggja ára, Serenu Williams. Það kom einnig á óvart hversu öruggur sigur Sharapovu var en að sjálfsögðu var þetta fyrsti sigur hennar á stórmóti og einnig fyrsti úrslitaleikurinn. Sigurinn er að því leyti sögulegur að Sharapova er fyrsti Rússinn til að vinna sigur á Wimbledon-mótinu og hún er þriðji yngsti sigurvegarinn í sögu þess. Það var hins vegar ekki að sjá að hin sautján ára Maria Sharapova, væri að spila til úrslita í fyrsta sinn á stórmóti - leikur hennar einkenndist af yfirvegun og öryggi. Það sama er ekki hægt að segja um hinn margreynda andstæðing hennar, Serenu Williams, sem hefur sex sinnum sigrað á stórmóti og gat fagnað sigri á Wimbledon þriðja árið í röð. Lokatölur í tveimur settum voru 6-1 og 6-4 og hinn ungi sigurvegari, Sharapova, mátti vart mæla eftir leikinn og þau voru ófá tárin sem hrundu niður vanga hennar: "Þetta er ótrúlegt, ég er algjörlega orðlaus," sagði Sharapova og var í hálfgerðri geðshræringu: "Það hefur alltaf verið draumur minn að vinna sigur hér á Wimbledon en í sannleika sagt þá átti ég ekki von á að það gerðist á þessu ári." Í karlaflokki áttust við í úrslitaleiknum þeir Roger Federer, frá Sviss og Andy Roddick, frá Bandaríkjunum. Svo fór að Svisslendingurinn hafði betur í fjórum settum, 4-6,  7-5, 7-6 og 6-4. Þetta er annað árið í röð sem Federer sigrar á mótinu en í fyrra lagði hann Ástralann Mark Philippoussis að velli í úrslitaleik. Með sigrinum sýndi Federer með óyggjandi hætti að hann er besti tennisleikarinn í heiminum í dag. Þó er óhætt að segja að Roddick hafi látið Federer hafa vel fyrir sigrinum og undir það tók Federer: "Hann spilaði af miklum krafti og ég verð að viðurkenna að spilamennska hans kom mér nokkuð á óvart í byrjun. Ég náði þó að halda dampi og smám saman náði ég betri tökum á leiknum og það er alveg yndislegt að ná að verja titilinn," sagði Federer. Andy Roddick tók tapinu af karlmennsku: "Ég gaf allt sem ég átti í leikinn en það var einfaldlega ekki nóg. Roger er frábær meistari og vonandi eigum við eftir að mætast oft í úrslitaleikjum á komandi árum," sagði Roddick.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×