Sport

Figo ekki í fýlu

Luis Felipe Scolari, landsliðsþjálfari Portúgals, segir að Luis Figo sé ekki í fýlu en annað mátti halda er honum var skipt af velli gegn Englendingum. Þá strunsaði Figo inn í klefa án þess að kveðja kóng né prest og höfðu Portúgalar áhyggjur af eftirmálum þess. Þeir verða engir að sögn Scolari en hann segir að Figo hafi tekið fullan þátt í fagnaðarlátunum eftir leikinn og að hann hafi legið á bæn inni í búningsklefanum er vítaspyrnukeppnin fór fram. "Ég bið ykkur blaðamenn um að virða mann sem á skilið að vera virtur. Þegar við tölum um Figo þá tölum við um mann sem er til í að verja land sitt og leggur sig allan fram. Gleymið þessu atviki. Hann er ekki í fýlu. Ég get líka sagt ykkur að hann gerir margt í klefanum sem þið vitið ekki um. Figo er liðinu mikilvægur og verður það áfram," sagði Scolari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×