Sport

Frakkar úr leik!

Hið ómögulega varð að veruleika í Evrópukeppninni í kvöld- stórlið Frakka var slegið út af spútnikliði Grikkja. 1-0 urðu lokatölur leiksins og var það gríðarlega vel skipulagður varnarleikur sem tryggði Grikkjum sigur, en að sama skapi hroðaleg spilamennska sem varð Frökkum að falli. Bæði leikmenn og stuðningsmenn Grikkja stigu stríðsdans í leikslok, á meðan sennilega allir Frakkar með tölu í heiminum séu ekki enn farnir að trúa því að lið þeirra sé úr leik. Frakkar stóðu sig yfirhöfuð illa á þessu móti, og féllu réttilega úr keppni. Leikurinn var afskaplega dapur í heild sinni og var baulað á leikmenn Frakka langtímum saman. Flestir bjuggust við því að það yrði aðeins formsatriði fyrir Frakka að ljúka þessum leik, þar sem þeir hafa á miklu sterkara liði en Grikkir á að skipa á pappírnum. En það hefur margsannað sig á slíkum stórmótum að það er liðsheildin sem skiptir höfuðmáli ef njóta á velgengni og er það eitthvað sem Frakka skortir verulega. Greinilegt er að eitthvað mikið er að í herbúðum liðsins og er það verðugt verkefni fyrir arftaka Jacques Santini að komast til botns í hugmyndaleysi liðsins á EM. Áhugaleysið er alsjáandi, leikmenn eru lítt hreyfanlegir og almennt andleysi skín af leik liðsins. Frakkar héldu greinilega að Grikkir yrðu auðveld bráð en fengu þá flugu rakleiðis aftur í höfuðið. Patrick Viera lék ekki með vegna smávægilegra meiðsla og var hans greinilega sárt saknað á miðjunni. Þeir sem hefðu eðlilega þurft að taka ennfrekar af skarið í fjarveru Viera, leikmenn á borð við Zinedine Zidane og Thierry Henry, stóðu engan veginn undir nafni eða væntingum og að launum fá þeir að fara fyrr í sumarfríið langþráða. Fyrri hálfleikurinn var arfaslakur á að horfa, og ótrúlegur viðsnúningur frá því í leik Portúgala og Englendinga, sem var stanslaust fjör nánast frá upphafi til enda. Nánast engin færi litu dagsins ljós og voru Grikkirnir ívið skeinuhættari ef eitthvað var. Fabian Barthez þurfti í tvígang að taka á honum stóra sínum en besta færið í fyrri hálfleik féll þó í skaut Henry, en hann skallaði framhjá í góðu færi. Síðari hálfleikur var svipaður þeim fyrri. Frakkar voru hugmyndasnauðir með eindæmum, hver misheppnaða sendingin rak aðra og Grikkir gáfu fá færi á sér. Það þurfti þó ekki mikið til - slíkur var frumkvæðaskortur Frakka. Á 65. mínútu gerðist síðan það sem fáir bjuggust við - Grikkir komust yfir með fallegu marki Angelos Charisteas og var það einfaldlega sanngjarnt miðað við gang leiksins. Eftir markið þyngdu Frakkar sóknarþungann og skiptu meðal annars Louis Saha, Sylvain Wiltord og Jerome Rothen inn á, en það eina sem leikmennirnir náðu að skapa sér voru hálffæri af verri gerðinni. Henry fékk besta færið þegar þrjár mínútur voru eftir, en aftur skallaði hann rétt framhjá. Á endanum voru úrslitin einfaldlega sanngjörn, Grikkir voru gríðarlega fastir fyrir og fundu Frakkar enga leið framhjá varnarmúr þeirra. Hugmyndaleysi Frakka var algjört, og ef mið er tekið af frammistöðu þeirra í leiknum í gær, og keppninni allri ef því er að skipta, áttu þeir einfaldlega ekki skilið að fara áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×