Lífið

Stærri og sterkari Rottweiler

"Lagið heitir Peningar og það er sami Rottweiler keimurinn af þessu lagi þó að það sé ekkert voðalega gróft," segir Lúlli í XXX Rottweiler hundum en hljómsveitin hefur nýlokið við gerð myndbands við nýtt lag sem kemur í spilun innan tíðar. "Við höfum átt í smá vandræðum með að fá lögin okkar spiluð út af textunum og myndböndin hafa verið bönnuð í sjónvarpinu svo að við tónuðum þetta aðeins niður. Lagið kemur samt ekkert út á neinum helvítis sumarsafndisk. Við verðum að hita upp fyrir 50 Cent tónleikana í ágúst og við vildum bara gera lag til að minna aðeins á okkur." Þorsteinn í Rottweiler segir að lagið hafi verið sent út til Erps og hann tekið upp sinn part þar og sent aftur heim. "Þetta er frábært lag og show-ið verður svakalegt. Það verða sprengingar á sviðinu og svo verða myndböndin okkar sýnd á risastóru tjaldi fyrir aftan okkur í takti við lögin. Dj Deluxe mun þeyta skífum að baki okkur og svo erum við með gestarappara sem heitir Unnar og býr í Danmörku. Þetta er harðasti íslenski rapparinn, hann hefur bæði verið skotinn og stunginn. Kjarri Kamoflage úr Bæjarins bestu er síðan með okkur í nýja laginu og hann er að koma mjög sterkur inn." En hvernig kom það til að þeir voru fengnir til að spila á undan 50 Cent? "Við vorum spurðir vegna þess að við erum stærsta hip hop hljómsveit Íslandssögunnar," segir Lúlli. En hvor fer seinna á svið Rottweiler eða Quarashi? "Ég veit það ekki hvað finnst þér? " Ja, ég veit það nú ekki. Líklega þið vegna þess að þið eruð meira Bling bling eins og 50. "Nákvæmlega, ég er fullkomlega sammála þér. Við erum miklu meira hip hop band, meira real eins og maður segir, Quarashi er meira rokk eða þannig en þeir er mjög vinsælir og þetta er góðir kunningjar okkar og vinir svo að það skiptir svo sem engu hvort bandið fer fyrr eða seinna á svið." En hvað ætliði að segja við 50 Cent ef þið hittið hann? "Ætli við spyrjum hann ekki hvort að við fáum að taka mynd af honum og Bent berum að ofan. Bent er að lyfta mjög mikið þessa dagana og er orðinn vel massaður. Hann er ekkert á sterum eða neitt svoleiðis, étur bara prótein og dót og er orðinn vel sterkur. Páll Rósinkrans tekur hann alla vega ekki aftur í sjómann eins og hann gerði í Rokkstjörnum Íslands." 50 Cent tónleikarnir verða 11. ágúst og miðasala byrjar nú í byrjun júlí.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.