Sport

Allan skiptir öllu fyrir FH

Allan Borgvardt var í fyrsta sinn í byrjunarliði FH-inga á tímabilinu þegar liðið vann 4-1 sigur á Grindavík í fyrrakvöld. FH-liðið geislaði af sjálfstrausti með Danann snjalla innanborðs og sýndi þá spilamennsku sem tryggði liðinu annað sætið á mótinu í fyrra en í kjölfarið var Allan valinn leikmaður ársins af félögum sínum í deildinni. Það tók Borgvardt aðeins tíu mínútur að leggja upp mark fyrir Atla Viðar Björnsson sem var boðið í færaveislu í Grindavíkurleiknum af Dananum en þeir félagar ná mjög vel saman í framlínu FH. Borgvardt tókst ekki að skora sjálfum en FH-liðið skoraði fjögur góð mörk og menn eins og Atli Viðar og Emil Hallfreðsson nýttust liðinu mun betur. FH-ingar unnu sex af síðustu átta leikjum Landsbankadeildar karla í fyrrasumar og voru með markatöluna 22-9 í þeim átta leikjum. FH hefur nú enn fremur unnið síðustu þrjá deildarleikina með Borgvardt í byrjunarliðinu með markatölunni 14-1. FH-ingar unnu "aðeins" tvo af fyrstu sex leikjum sínum í sumar og það var ljóst á öllu að meiðsli Allans varð til þess að liðið náði ekki upp þeirri frábæru spilamennsku sem liðið endaði Íslandsmótið á í fyrra. Nú er liðið komið á rétta braut, taplausir í fimm leikjum og með sjö stig í húsi af síðustu níu mögulegum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×