Sport

Hetjan hanskalausa

Markvörður Portúgala, Ricardo, tryggði sæti í undanúrslitum EM. Portúgalar lögðu Englendinga að velli eftir vítaspyrnukeppni. Jafnt var 2-2 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Óhætt er að segja að Englendingar hafi fengið sannkallaða óskabyrjun í leiknum því eftir aðeins þriggja mínútna leik skoraði Michael Owen og var það mark glæsilegt. Owen var eldsnöggur að átta sig, eftir langt útspark hjá David James, og varnarmistök heimamanna, og sýndi snilli sína loksins en drengurinn hefur verið týndur og tröllum gefinn á EM. Eftir þetta kom smá spennufall en þó var fyrri hálfleikur í það heila fjörlegur. Til að mynda fengu Portúgalar fjórar aukaspyrnur rétt fyrir utan vítateig Englendinga en Luis Figo var svo sannarlega ekki á skotskónum - hann tók allar fjórar spyrnurnar en hitti aldrei á markið. Englendingar urðu fyrir miklu áfalli á 27. mínútu en þá meiddist gullkálfurinn með góða geðslagið, Wayne Rooney, og er jafnvel óttast að hann sé ristarbrotinn. Darius Vassell fékk það erfiða hlutverk að fylla skarð Rooneys. Í síðari hálfleik voru Portúgalir meira með boltann og reyndu hvað þeir gátu til að ná upp öflugri pressu - það gekk heldur brösuglega því Englendingar voru skipulagðir og vörðust og börðust vel. Enda náðu þeir hættulegum skyndisóknum en varð ekki ágengt. Á 75. mínútu var fyrirliði Portúgala, Luis Figo, tekinn af velli en í hans stað kom Helder Postiga, leikmaður Tottenham Hotspur. Skiptingin vakti ekki mikla kátinu hjá Figo sem fór út af á hliðarlínunni og var greinilega öskureiður. Þessi skipting átti þó eftir að borga því aðeins átta mínútum síðar jafnaði Postiga metin með glæsilegu skallamarki eftir frábæra fyrirgjöf Simao Sabrosa og allt varð hreinlega vitlaust á Ljósuvöllum. Mark var dæmt af Englendingum á 90. mínútu en þá skallaði Sol Campbell boltann í netið af örstuttu færi en John Terry braut hins vegar á markverði Portúgala um leið. Framlenging var því staðreynd. Portúgalar sóttu af krafti allir sem einn strax í fyrri hluta framlengingarinnar en Englendingar voru áfram sterkir og eldfljótir í skyndiáhlaupin. Í síðari hlutanum var svipað upp á teningnum eða alveg þangað til Rui Costa skoraði nánast upp úr þurru með stórkostlegu skoti á 110. mínútu, sláin inn, algjörlega óverjandi fyrir David James. Englendingar voru ekki á að hætta og fimm mínútum síðar jafnaði Frank Lampard metin. Eftir hornspyrnu Davids Beckham skallaði John Terry knöttinn til Lampards sem var einn og yfirgefinn alveg upp við mark Portúgala og átti ekki í erfiðleikum með að skora. Áfram hélt spennan og sótt var á báða bóga í blálokin en vítaspyrnukeppni var óumflýjanleg. Sú keppni fór í bráðabana þar sem markvörðurinn Ricardo stal senunni. Berhentur varði hann víti frá Dariusi Vassell og gerði sér síðan lítið fyrir og tók næstu spyrnu og skoraði úr henni af öryggi og tryggði þar með Portúgölum sæti í undanúrslitum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×