Sport

Samsæriskenningar hjá Ítölum

Taugatitringur er farinn að gera vart við sig fyrir lokaleiki C-riðils sem fram fara í kvöld. Þá mætast annars vegar Danir og Svíar og hins vegar Ítalir og Búlgarar. Ítalir eru nánast farnir að örvænta fyrir fram en hráki Tottis og fjölmiðlafýla Vieri hafa ekki létt á þeim brúnina og nú er farinn að heyrast orðrómur - samsæriskenning. Skoðum málið.Danir og Svíar hafa brugðist ókvæða við þeim orðrómi að þeir hafi gert með sér samkomulag fyrir leik liðanna í kvöld. Samkomulagið á að ganga út á það að liðin skilji jöfn, 2-2, og komist þannig bæði áfram úr riðlinum á kostnað Ítala, takist þeim á annað borð að leggja Búlgara að velli. Fari 2-2 í leik liðanna skiptir engu máli þótt Ítalir bursti Búlgara þar sem mörk í innbyrðisviðureignum liðanna gilda og þau eru Dönum og Svíum í hag."Þetta er algjörlega fáránlegt," sagði þjálfari Dana, Morten Olsen, aðspurður um þessa samsæriskenningu: "Hverjir haldið þið að við séum eiginlega? Haldið þið að við séum ekki heiðarlegir og sannir íþróttamenn? Ég vil ekki heyra meira minnst á þetta kjaftæði. Við munum að sjálfsögðu stefna á sigur í leiknum - við munum ekki gera þetta á neinn ítalskan hátt!," sagði reiður Morten Olsen. Annar þjálfari Svía, Tommy Söderberg, var ekki heldur sáttur við þennan samsæriskvitt: "Við segjum það enn og aftur, við munum ekki gera neitt samkomulag við Dani. Fótbolti snýst um ástríðu og virðuleika - að spila góðan leik og vera stoltur af því," sagði Söderberg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×