Sport

Figo ætlar að gefa allt sem hann á

Luis Figo segist ákveðinn í því að láta leikinn gegn Spánverjum í dag ekki verða þann síðasta sem hann spilar í skyrtu portúgalska landsliðsins. Figo gaf það út í síðasta mánuði að EM yrði hans síðasta verkefni með landsliðinu, og hungrar hann í velgengni með liði sínu á EM. „Vitandi það að hver leikur gæti orðið minn síðasti fyrir Portúgal gerir mig enn ákveðnari í að gefa allt sem ég á fyrir liðið, þjóðina og áhangendurna. Ég mun hafa hemil á tilfinningum mínum á sem faglegastan máta þar til þátttöku okkar hér á EM lýkur," sagði Figo á blaðamannafundi í gær. Gríðarlega mikil eftirvænting ríkir fyrir leikinn og þurfa Portúgalar nauðsynlega á sigri að halda, en Spánverjum nægir jafntefli til að komast áfram í 8-liða úrslit. Taugatitringurinn í herbúðum beggja liða er í hámarki og er ljóst að þessar nágrannaþjóðir og erkifjendur munu ekki aðeins keppa í fótbolta, heldur einnig um að viðhalda þjóðarstoltinu. „Mín fyrstu viðbrögð þegar ég sá að við værum í riðli með Spánverjum var að sá leikur yrði gríðarlega erfiður. Bæði lið hafa á að skipa stórkostlegum knattspyrnumönnum og spila svipaðan fótbolta. Með það í huga þá býst ég ekki við opnum leik, heldur verður baráttan í fyrirrúmi," segir Figo og bætir við að það verði mjög skrítið að mæta Spánverjum. „Raul og Fernando Morientes eru góðir vinir mínir og það verður einkennilegt að spila á móti þeim,"segir Figo.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×