Sport

Frakkar heppnir að fá eitt stig

Ólöglegt mark frá David Trezeguet á 64. mínútu tryggði Frökkum annað stigið gegn sprækum Króötum í viðureign liðana á Evrópumótinu í gær. Liðin skildu jöfn, 2–2, í frábærum leik sem bauð upp fjölda færa og mikla dramatík. Það voru slæm mistök frá Igor Tudor sem leiddu til marksins, en hann gaf tæpa sendingu til baka á Tomislav Butina í markinu sem reyndi að þruma boltanum í burtu. Þá kom Trezeguet aðvífandi og fékk boltann greinilega í hendina á sér eftir spyrnu Butina. Af hendinni lagðist boltinn þægilega fyrir fætur Trezeguet og átti hann ekki í erfiðleikum með að skora í autt markið. Króatar urðu æfir út í Kim Milton Nielsen, annars ágætan dómara leiksins, og það skiljanlega, því mögnuð endurkoma þeirra skömmu áður hafði verið eyðilögð. Það voru Frakkar sem byrjuðu mun betur í leiknum í gær og komust yfir með sjálfsmarki frá Tudor á 22. mínútu. Króatar mættu til leiks með breytt hugarfar í síðari hálfleik og uppskáru tvö mörk á fjögurra mínútna kafla. Það fyrra úr vítaspyrnu sem Milan Rapaic skoraði örugglega úr, og það síðara með góðu skoti Dado Prso sem nýtti sér slæm mistök Marcel Desailly í vörn Frakka. Bæði lið fengu góð færi til að tryggja sér sigurinn eftir að Trezeguet jafnaði, en inn vildi boltinn ekki. Frökkum nægir nú jafntefli gegn Sviss í síðasta leiknum til að komst áfram en Króatar þurfa sigur gegn Englandi í sínum lokaleik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×