Sport

Tökum Englendinga í kennslustund

Hakan Yakin, leikstjórnandi Svisslendinga, segir Englendinga liggja vel við höggi eftir áfallið gegn Frökkum á sunnudaginn og segist hann stefna á að auka enn frekar á vonleysi þeirra á morgun þegar þjóðirnar mætast innbyrðis. "Ég sá leik þeirra gegn Frökkum og þetta var ótrúlegur leikur," sagði Yakin og hófst síðan handa að gera lítið úr enska liðinu. "Mér finnst vörn Englands ekki sannfærandi og ég er viss um að við eigum eftir að velgja henni undir uggum," segir Yakin og bætir við að ensku leikmennirnir hafi ekki nægan karakter til að ná langt í keppninni. "Gæðalið myndu vinna leiki ef þau væru með 1-0 forystu á 90. mínútu. Ég held að leikmenn liðsins hafi ekki þann sálfræðilega styrk sem til þarf í keppni eins og EM. Ég var alltaf sannfærður um að Frakkar myndu sigra og skilja Englendinga eftir í sárum. Nú eigum við að nota tækifærið og meiða þá meira. Þeir þurfa á kennslu í hugarfari að halda og við Svisslendingar ætlum að veita þeim hana, algjörlega að kostnaðarlausu," segir Yakin, sjálfstraustið uppmálað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×