Sport

Detroit Pistons meistarar

Detroit Pistons tryggði sér í nótt sigurinn í NBA-deildinni í körfuknattleik með því að leggja LA Lakers að velli, 100-87, í fimmta leik liðanna í Detroit. Loksins tókst liði úr Austurdeildinni að vinna titilinn í NBA-körfuboltanum í Bandaríkjunum. Lið Detroit Pistons, sem að fáir áttu von á að myndi eiga séns í hið geysisterka lið Los Angeles Lakers, gerði sér lítið fyrir og vann úrslitaseríuna í fimm leikjum. Pistons var með sigurinn í hendi sér alla rimmuna og sáu leikmenn Lakers aldrei til sólar í einvíginu. Detroit er fyrsta liðið á Austurströndinni til að vinna titilinn síðan 1998 þegar hið víðfræga Chicago Bulls vann dolluna. Allar götur síðan hafa lið Vesturdeildarinnar einokað titilinn. Með bakið upp við vegg mætti Lakers til leiks í fimmta leik liðanna í fyrrinótt. Plan kvöldsins var mjög einfalt – ná fram sigri til að komast aftur í Staples Center í Los Angeles. Leikmenn Lakers náðu að bíta frá sér í byrjun leiks og náðu mest sjö stiga forskoti. Pistons lét það þó ekki slá sig út af laginu og náði yfirhöndinni fyrir lok fyrsta fjórðungs. Kobe Bryant og félagar áttu ekki erindi sem erfiði það sem eftir lifði leiks og voru hreinlega yfirspilaðir af vel stemmdu liði Pistons. Rip Hamilton fór á kostum, skoraði 21 stig og var dyggilega studdur af Chauncey Billups, sem valinn var besti leikmaður úrslitakeppninnar. Fyrir seríuna sagði Billups að þeir ætluðu að hrista upp í heimsbyggðinni. "Við vissum sem lið að við værum betri" sagði Billups eftir leikinn. Pistons náði mest 29 stiga forskoti í fjórða leikhluta og Phil Jackson, þjálfari Lakers, varð í fyrsta sinn á ferlinum að játa sig sigraðan í úrslitaviðureign. "Þeir spiluðu mjög vel og skotnýtingin þeirra var frábær" sagði Jackson, sem gaf í skyn að þetta væri hans síðasta tímabil. "Ég vil ekki fullyrða neitt en það eru góðar líkur á því". Vonbrigðin fyrir Lakers voru gríðarleg og þá sérstaklega fyrir Karl Malone og Gary Payton sem báðir gerðu sér góða von um að ná sér í sinn fyrsta meistarahring. Óvíst er hvort þeir fái annað tækifæri til þess enda framtíð liðsins í mikilli óvissu. Kobe Bryant og Shaquille O’Neal eru báðir með lausa samninga og er ekki vitað hvernig þau mál fara. Andleysi liðsins gegn Detroit var mjög áberandi og sorglegt fyrir Lakers-aðdáendur að sjá liðið falla um sjálft sig. Lið Detroit Pistons vann síðast titil árið 1990 en þá lék Joe Dumars með liðinu sem er núna framkvæmdastjóri Pistons. Dumars var að vonum sáttur við úrslitin. "Mér fannst frá upphafi að við værum með betra lið" sagði Dumars. "Þeir eru með tvo bestu leikmenn heims. En þetta er ekki tennis! Það er liðsheildin sem ræður úrslitum". Orð að sönnu hjá Joe Dumars. Fróðlegt verður að fylgjast með Detroit Pistons á komandi tímabili og hvort það nái að fylgja þessum frábæra árangri eftir. Það hefur allar burði til þess enda með firnasterka leikmenn í hverri stöðu og vel að titlinum komið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×