Sport

Frábært á EM

Wayne Rooney, hinn ungi framherji enska landsliðsins, er í sjöunda himni með reynslu sína af Evrópumótinu Portúgal hingað til. Rooney var besti leikmaður enska liðsins í tapleiknum gegn Frökkum á sunnudaginn, í sinum fyrsta leik á stórmóti, og er afskaplega jákvæður þrátt fyrir úrslitin. "Það er frábært að vera hérna með bestu leikmönnum Evrópu. Þetta er stórkostleg reynsla fyrir ungan leikmann eins og mig og getur aðeins hjálpað mér sem leikmanni," sagði Rooney á blaðamannafundi í gær. Rooney talaði einnig um vináttu sína við Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool, og sagði Gerrard hafa hjálpað sér mikið. "Hann hefur reynst mér ómetanlegur og er alltaf tilbúinn að gefa mér góð ráð þegar ég þarf á því að halda. Við eyðum miklum tíma saman, spilum borðtennis og ballskák en það verður reyndar að viðurkennast að ég er mun betri en hann í báðum þessum íþróttum." Rooney getur orðið yngsti leikmaðurinn í sögu úrslitakeppni Evrópumótsins ef hann skorar gegn Sviss á morgun en hann vildi lítið gera úr því. "Það væri auðvitað gaman að eiga það í minningunni að hafa verið yngsti leikmaðurinn til að skora í þessu móti en það mikilvægasta er að vinna leikinn, hver skorar mörkin er algjört aukaatriði," sagði Rooney, sem hefur staðið undir væntingum og gott betur það sem af er þessu móti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×