Sport

Ledley King byrjar gegn Frökkum

Stærsti leikur helgarinnar og einn af stærstu leikjum Evrópukeppninnar verður í Lissabon í dag þegar Frakkar og Englendingar mætast. Það er ekki nóg með að þjóðirnar séu nágrannar og erkifjendur í gegnum tíðina þá spila margir leikmanna franska liðsins í ensku úrvalsdeildinni sem gerir þennan frábæra leik enn fróðlegri. Sven Göran Erikson er búinn að tilkynna það að það verði Ledley King, leikmaður Tottenham, sem muni fylla skarð Johns Terry sem getur ekki spilað vegna meiðsla. Eriksson var ánægður með spilamennsku Kings með landsliðinu að undanförnu og það skipti einnig máli að hann þekkir vel til Sols Campbel síðan þeir léku saman hjá Tottenham. „Ég þarf ekki að segja mínum mönnum að þeir geti unnið Frakka. Við berum virðingu fyrir þessu franska liði en við erum ekki hræddir við þá. Þetta mót verður mun betra hjá okkur en síðasta HM. Við erum nú með alla okkar menn heila, erum í betra formi og nú er það okkar að sýna okkur og sanna sem mikla knattspyrnuþjóð,“ sagði Eriksson á blaðamannafundi fyrir leikinn. Frakkar eru sigurstranglegast liðið í keppninni. Þeir eru núverandi Evrópumeistarar, unnu alla leiki sína í undankeppninni og hafa ekki fengið á sig mark í rétt tæpt ár. Lilian Thuram mun spila sinn 100. landsleik í þessum leik en aðrir sex aðrir leikmenn í allri keppninni hafa náð þeim árangri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×