Körfubolti

Pétur tekur við þjálfun Hauka

Aron Guðmundsson skrifar
Pétur Ingvarsson er nýr þjálfari karlaliðs Hauka í körfubolta
Pétur Ingvarsson er nýr þjálfari karlaliðs Hauka í körfubolta Vísir/Hulda Margrét

Pétur Ingvarsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Hauka í körfubolta. Hann tekur við liðinu af Friðriki Inga Rúnarssyni.

Frá þessu greina Haukar í færslu á samfélagsmiðlum en Pétur, sem var látinn taka poka sinn sem þjálfari karlaliðs Keflavíkur fyrr á árinu, skrifar undir tveggja ára samning á Ásvöllum. Pétur gerði lið Keflavíkur að bikarmeisturum á síðasta ári.

Haukar leika í næstefstu deild á næsta tímabili eftir að hafa fallið úr Bónus deildinni á yfirstandandi tímabili. Pétur er kunnugur staðháttum hjá Haukum, hann er uppalinn Haukamaður og lék lengi vel með meistaraflokki félagsins ásamt því að hann hefur þjálfað yngri flokka þess sem og meistaraflokkinn.

„Það er mikill fengur að fá Pétur aftur til Hauka sem þjálfara karlaliðsins okkar,“ segir Brynjar Þór Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka. „Okkar sýn er að byggja upp karlalið til framtíðar á skynsaman hátt en innan vébanda Hauka eru ungir og efnilegir leikmenn sem geta náð langt. Ráðning Péturs til félagsins er mikilvægt skref til að takast á við það markmið. Ég hlakka til samstarfsins við Pétur og ég veit að honum verður vel tekið af stuðningsfólki Hauka.“

Sjálfur segist Pétur þakklátur Brynjari sem og stjórn Hauka fyrir þetta tækifæri.

„Markmiðin eru skýr að koma Haukum aftur upp í deild þeirra bestu byggt á haukamönnum tilbúna til að berjast um titla.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×