Sport

Grikkir ekki hræddir við Spánverja

Otto Rehhagel, hinn þýski þjálfari Grikkja, sagði í gær að hans menn hefðu nægt sjálfstraust til að leggja Spánverja að velli í leik liðanna í A-riðli á miðvikudaginn. Grikkir sigruðu Spánverja, 1-0, á Spáni fyrir rúmu ári í undankeppni EM og Rehhagel sagði að nú væri möguleikinn til staðar til að komast áfram. "Við höfum komið okkur í góða stöðu og þurfum að sjá til þess að við missum ekki af þessu gullna tækifæri til að komast áfram upp úr riðlinum. Við vitum að Spánverjar eru fyrir fram sigurstranglegri í leiknum á miðvikudaginn en við mætum óhræddir til leiks. Sigurinn gegn Portúgal gefur okkur byr undir báða vængi og sýndi liðinu að það er allt hægt í fótbolta," sagði Rehhagel og gekk síðan svo langt að segja að þessi leikur færi í sögubækurnar. "Ég sagði við mína menn fyrir leikinn að ef þeim tækist að sigra Portúgali myndi gjörvöll heimsbyggðin taka eftir þeim. Þetta er sögulegur sigur, sá glæstasti í knattspyrnusögu Grikkja og fólk mun tala um hann næstu áratugina. Hann hefur líka gert það að verkum að kröfurnar eru meiri, sem er af hinu góða."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×