Sport

Schumacher ósigrandi í Kanada

Þýski ökuþórinn Michael Schumacher er á góðri leið með að eyðileggja Formúlu 1 kappaksturinn sem spennandi íþrótt. Yfirburðir hans eru slíkir að aðrir ökumenn líta út eins og þeir séu að leika í myndinni Ekið með Miss Daisy og í gær vann hann sinn sjöunda sigur í átta fyrstu keppnum ársins þegar hann kom fyrstur í mark í kanadíska kappakstrinum sem fram fór í Montreal. Sigurinn kom þó áhugamönnum í Formúlunni ekki á óvart því þetta var þriðja árið í röð og í sjöunda sinn sem þessi frábæri Þjóðverji vinnur í Montreal. Sigurinn var jafnframt 77. sigur Schumachers í Formúlu 1 kappakstrinum en hann var þó ekki auðsóttur. Schumacher var sjötti eftir tímatökuna og þurfti á öllu sínu besta að halda til að ná forystunni úr höndum bróðurs síns Ralfs sem var fyrstur á ráspól. Ralf, sem ekur fyrir Williamsliðið, réð ekki við eldri bróður sinn þegar Michael hafði náð forystunni og mátti teljast góður með að halda öðru sætinu því Rubens Barrichello, félagi Michaels hjá Ferrari, sótti hart að Ralf. Bretinn Jenson Button hjá BAR hafnaði í fjórða sæti. Schumacher hefur nú 70 stig á toppnum í keppni ökumanna, átján stigum á undan félaga sínum Barrichello. Button er þriðji með 43 stig. "Ég get ekki verið annað en sáttur við þennan sigur. Ég vissi að það yrði erfitt fyrir mig að ná fyrsta sætinu eftir lélega tímatöku en sem betur fer gekk allt upp hjá mér í dag," sagði Schumacher eftir keppnina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×