Sport

Blóð ,sviti og tár í B-riðli

B-riðillinn er sennilega sá sem mesta athygli á eftir að vekja á meðal íslenskra knattspyrnuáhangenda og stafar það einkum af stórþjóðunum Englandi og Frakklandi. Þessir tveir risar í evrópskri knattspyrnu munu mætast á morgun í leik sem verður að kalla þann stærsta í riðlakeppninni. Búast má við svakalegum leik, þar sem barist verður upp á líf og dauða. Hin liðin í riðlinum, Króatía og Sviss, falla algjörlega í skuggann af þessum risum en þó má ekki falla í þá gryfju að vanmeta þau. Efstir í veðbönkum Núverandi Evrópumeistar Frakka eru efstir í veðbönkum ytra hvað varðar þá sem líklegastir eru til að vinna titilinn. Liðið virðist hafa jafnað sig á vonbrigðunum frá því á HM 2002, þar sem liðið komst ekki upp úr undanriðlinum, og flaug liðið í gegnum undankeppni EM. Engu munaði að liðið setti heimsmet með 15 sigurleikjum í röð, en 0- 0 jafntefli við Hollendinga kom í veg fyrir það. Allir þekkja franska liðið, stórkostlegir leikmenn í öllum stöðum og þegar þeir spila eins og þeir geta best vinnur þá enginn. Svo einfalt er það. Vantar hið gullna jafnvægi Ef allt er eðlilegt ættu Englendingar að fylgja Frökkum upp úr þessum riðli. Liðið er með góða leikmenn í öllum stöðum vallarins en aðalvandamálið felst í því að ná jafnvægi milli sóknar og varnar. Sven-Göran Eriksson, þjálfari liðsins, hefur ekki enn fundið þessa blöndu og virðist vera illa við að leika með Nicky Butt í stöðu varnartengiliðs. Hann kýs heldur Frank Lampard fram yfir hann í stöðu sem hann hefur aldrei leikið. Michael Owen þarf að vera í formi til að Englendingar eigi að ná langt. Hvert stig meiriháttar afrek Engar væntingar eru bornar til Sviss í þessari keppni og má segja að hvert stig sem liðið hlýtur í þessum riðli sé meiriháttar afrek. Svisslendingar munu koma til með að treysta á góða vörn þar sem Stephane Henchoz og Murat Yakin verða aðalmennirnir. Fyrsti leikurinn gegn Króatíu skiptir höfuðmáli og góð frammistaða þar gæti virkað sem vítamínsprauta á liðið fyrir framhaldið. Hugsanlegt spútniklið Króatar hafa á að skipa ungu liði með fullt af skapandi og teknískum leikmönnum, en þá vantar sárlega leiðtoga. Miðjan er veikasti hlekkur liðsins og vantar mann þar sem getur stutt við bakið á firnasterkri sóknarlínu þar sem Dado Prso, sem sló í gegn með Mónakó í Meistaradeildinni í vetur, er hættulegastur. Gæti vel orðið spútniklið keppninnar. Lykilmenn í B-riðli Frakkland Sókn Thierry Henry Miðja Zinedine Zidane Vörn Lilian Thuram England Sókn Michael Owen Miðja David Beckham Vörn Sol Campbell Sviss Sókn Alexander Frei Miðja Hakan Yakin Vörn Murat Yakin Króatía Sókn Dado Prso Miðja Milan Rapaic  Vörn Igor Tudor



Fleiri fréttir

Sjá meira


×