Sport

Lettar ætla að sanna sig

Aleksandrs Starkovs, landsliðsþjálfari Letta, er kokhreystin uppmáluð fyrir EM í Portúgal. Hann blæs á allar hrakspár sérfræðinga og segir tap gegn Tékkum einfaldlega ekki inni í myndinni en liðin mætast í D-riðli á þriðjudaginn. „Fyrir fram erum við ekki taldir líklegir til afreka og það eru margir sem telja að við eigum ekkert erindi hér á EM,“ sagði Starkovs og bætti við: „Þetta verða allt erfiðir leikir enda Tékkar, Hollendingar og Þjóðverjar allt hátt skrifaðar knattspyrnuþjóðir. Við eigum þó mikið inni og ætlum að sýna það á þriðjudaginn úr hverju við erum gerðir og sanna í eitt skipti fyrir öll að árangur okkar í undankeppninni var engin tilviljun.“ Samkvæmt veðbönkum eiga Lettar minnsta möguleika allra landsliða á Evrópumeistaratitlinum. Íslenska landsliðið mætti Lettum í lok apríl og lauk þeim leik með markalausu jafntefli. Lettneska liðið hafði betur í baráttu við það pólska og ungverska um annað sætið í sínum riðli og lagði síðan Tyrki óvænt í umspili í nóvemer síðastaliðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×