Sport

Ólíkur leikstíll í C-riðli á EM

Fyrir fram eru það Ítalir sem eru sigurstranglegastir í þessum C-riðli keppninnar. En hin liðin þrjú, Danmörk, Svíþjóð og Búlgaría, eru öll sýnd veiði en ekki gefin og geta öll auðveldlega komið á óvart. Leikstíll liðanna er mjög ólíkur, og þykir það ýta undir að viðureignirnar í þessum riðli geti orðið mjög skemmtilegar. Agað lið ÍtalaÍtalir eru með gríðarlega agað lið, spila mjög skipulega og eru líklega með bestu vörn í keppninni. Með sterka miðju og menn á borð við Christian Vieri og Francesco Totti í sókninni hafa Ítalir allt sem þarf til að hreppa titilinn. Ítalir hafa ekki haft heppnina með sér í síðustu tveimur stórmótum, en árið í ár gæti orðið þeirra. Þjóðin sættir sig ekki við neitt annað en sigur frá Giovanni Trapattoni og hans lærisveinum, og því er mikil pressa á herðum leikmanna liðsins.  Danir spila sóknarbolta Danir komu öllum heiminum á óvart með því að vinna Evróputitilinn árið 1992. Nú, rúmum 10 árum seinna, spila Danir skemmtilegan sóknarbolta þar sem spilið fer mikið í gegnum tvo eldfljóta vængmenn, Jesper Gronkjær og Martin Jørgensen. Síðan er treyst á tvo reynda framherja, Jon Dahl Tomasson og Ebbe Sand, til að skora mörkin. Þar sem Ítalir eru taldir sigurstranglegir má leiða að því líkur að lykilleikur Dana í riðlinum verði gegn nágrönnunum í Svíþjóð. Svíar endurheimtu Larsson Flestir telja að baráttan um annað sætið í riðlinum muni standa á milli Svía og Dana. Endurkoma Henriks Larsson í sænska liðið veitir því mikið sjálfstraust og hafa leikmennirnir trú á að þeir geti veitt Ítölum verulega keppni um efsta sætið í riðlinum. Svíar hafa á mjög reyndu liði að skipa og ef Larsson nær upp góðum skilningi við félaga sinn í framlínunni, Zlatan Ibrahimovic, geta Svíar unnið alla andstæðinga sína í þessum riðli. Búlgarar ungir og óreyndirÓvænt velgengni Búlgara í undankeppninni kom á stað bjartsýnisbylgju á meðal þjóðarinnar um að hið unga núverandi lið Búlgara gæti fetað í fótspor fyrirrenna sinna, sem komust í undanúrslit HM 1994. En liðið er mjög ungt og óreynt, reyndar með yngsta meðalaldurinn í allri keppninni, og er ekki búist við miklu af þeim. Það má þó alls ekki vanmeta Búlgara. Leikskipulag liðsins snýst að mestu um tvo menn; leikstjórnandann Stilyan Petrov og markaskorarann Dimitar Berbatov. Lykilmenn liðanna í C-riðli Ítalía Sókn: Francesco Totti Miðja: Simone Perrotta Vörn: Alessandro Nesta SvíþjóðSókn: Henrik Larsson Miðja: Fredrik Ljungberg Vörn: Olaf Mellberg Danmörk Sókn: Jon Dahl Tomasson Miðja: Thomas Gravesen Vörn: Thomas Helveg BúlgaríaSókn: Dimitar Berbatov Miðja: Stilian Petrov Vörn: Ivailo Petkov



Fleiri fréttir

Sjá meira


×