Sport

Rooney gerir samning við Nike

Unglingsstaulinn Wayne Rooney, leikmaður Everton og enska landsliðsins, er þegar byrjaður að maka krókinn allverulega þótt ungur og óharðnaður sé. Þessi átján ára fagri foli, gerði nýverið samning við íþróttavöruframleiðandann Nike sem metinn er á fimm milljónir punda í það minnsta. Samningurinn er til tíu ára og virði hans eykst í takt við mögulega velgengni Rooneys. Hann mun koma fram í auglýsingaherferð á vegum Nike sem verður í þrívídd og mun hefja göngu sína í þessari viku. Wayne Rooney er yngsti leikmaður sem skorað hefur fyrir landslið Englendinga en það gerði hann gegn Makedóníu í hitteðfyrra en þá hafði vist hans á Hótel Jörð talið 17 ár og 317 daga. Hann bætti við tveimur mörkum í markasafn sitt um síðustu helgi gegn okkur Íslendingum og Englendingar binda miklar vonir við að hann geri stóra hluti á EM í Portúgal.Rooney hefur verið orðaður við stórlið Manchester United og Chelsea en forráðamenn Everton blása á allar slíkar sögusagnir. Þeir segja að Rooney muni skrifa undir nýjan fimm ára samning við Everton í sumar og fullyrða að þeir muni ekki selja hann þrátt fyrir hrikalega skuldastöðu félagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×