Sport

Markalaust hjá Dönum og Ítölum

Danmörk og Ítalía gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik sínum í C-riðli Evrópukeppninnar í knattspyrnu. Leikurinn var nokkuð fjörugur þótt ekki væri hann neitt sérlega fallega spilaður og voru frændur okkar í það heila betri aðilinn þótt ekki næðu þeir neinum heljartökum á leiknum. Danir voru meira með boltann eða 55% leiktímans en liðin áttu bæði tólf skot. Það sem gladdi augað helst í leiknum var frábær markvarsla á báða bóga. Í fyrri hálfleik varði Daninn Thomas Sörensen tvisvar frábærlega í sömu sókninni, fyrst frá Alessandro Del Piero og síðan Francesco Totti. Í síðari hálfleik sýndi ítalski markvörðurinn Gianluigi Buffon snilldartakta þegar hann varði fyrst frá Jon Dahl Tomasson og svo Dennis Rommedahl. Fleiri góðar markvörslur litu dagsins ljós og þeirra verður helst minnst þegar leikurinn er gerður upp. Danir sýndu að þeir eru í fantaformi og liðið bar enga virðingu fyrir ítölsku sykurpúðunum og snyrtipinnunum. Ítalir voru ekki að spila ýkja sannfærandi, sérstaklega þegar haft er í huga hversu vel þetta lið er skipað - valinn maður í hverju skipsrúmi og það ætti að geta spilað skemmtilegri og árangursríkari fótbolta. Fyrir leikinn í dag höfðu þessar þjóðir mæst tíu sinnum og höfðu Ítalir unnið sjö leiki og Danir þrjá, þannig að frá því sjónarhorni var þetta sögulegur leikur; fyrsta jafnteflið staðreynd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×