Sport

Ólafur Ingi áfram hjá Arsenal

Ólafur Ingi Skúlason mun á allra næstu dögum skrifa undir eins árs framlengingu á samningi sínum við Englandsmeistara Arsenal. Ólafur, sem er uppalinn Fylkismaður, hefur verið samningsbundinn Arsenal frá árinu 2001 en hann lék þó með Fylki lungann úr síðastliðnu sumri og stóð sig mjög vel. Í vetur sem leið lék hann tvo leiki með aðalliði Arsenal í Carling-bikarkeppninni. Sjálfur reiknar Ólafur Ingi fastlega með því að verða lánaður frá Arsenal á næstu leiktíð til liðs á meginlandi Evrópu eða jafnvel til liðs í 1. deildinni ensku að afloknu undirbúningstímabilinu á Englandi sem hefst sjötta júlí næstkomandi. Á dögunum fengu sautján leikmenn Arsenal reisupassann, fengu sem sagt ekki endurnýjun á samningum, og miðað við það er alveg greinilegt að Arsene Wenger, framkvæmdastjóri félagsins, hefur trú á Ólafi Inga Skúlasyni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×