Sport

Fram mætir Keflavík

Dregið var í VISA-bikarkeppni KSÍ í hádeginu í gær. Hjá körlunum var dregið í 16 liða úrslit en hjá konunum í 8 liða úrslit. Bikarleikir eru alltaf spennandi en mesta athygli hjá körlunum vöktu þó að venju leikir á milli úrvalsdeildarliðanna. Víkingar eiga harma að hefna gegn KA-mönnum en þeir síðarnefndu hreinlega stálu sigrinum þegar liðin mættust í Landsbankadeildinni. Framarar taka á móti Keflvíkingum og Fylkismenn halda til Grindavíkur. Óhætt er að segja að FH-ingar hafi ekki getað verið heppnari - fengu heimaleik gegn 2. deildar liði Aftureldingar. Heimir Guðjónsson, fyrirliði FH, var líka býsna sáttur: "Ef hausinn á okkur verður í lagi eigum við að leggja Aftureldingu að velli. Við verðum þó að passa okkur því gengi okkar hefur verið nokkuð brösótt en þó er stutt í toppinn," sagði Heimir. Hjá konunum vekur leikur bikarmeistara Vals og Breiðabliks mesta athygli og þetta hafði þjálfari Valsstelpna, Elísabet Gunnarsdóttir, að segja: "Í bikarnum skiptir engu máli hvern maður fær - bikarleikir eru alltaf erfiðir. Það var þó mjög ánægjulegt að fá heimaleik og að sjálfsögðu stefnum við ótrauðar á að verja bikarinn. Fólk hefur talað um það að Valur hafi alltaf farið auðveldu leiðina í úrslit og ef af því verður í ár getur fólk hætt að tala um það," sagði Elísabet Gunnarsdóttir, glettin á svip. Leikirnir hjá körlunum fara fram 2.-5. júlí en hjá konunum 9.-10. júlí. 16 liða úrslit karla Víkingur-KA Njarðvík-KR HK-Reynir Sandgerði Þróttur-Valur Fram-Keflavík ÍBV-Stjarnan Fylkir-Grindavík FH-Afturelding 8 liða úrslit kvenna Þór/KA/KS-KR ÍBV-Þróttur Stjarnan-Fjölnir eða FH Valur-Breiðablik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×