Sport

Larsson mættur

Svíar hófu Evrópukeppnina með glans í gærkvöldi en þá burstuðu þeir Búlgara, 5-0, í C-riðli. Með leik sínum sýndu Svíarnir að þeir eru til alls vísir - voru léttleikandi, sjálfsöruggir og skapandi. Búlgarar voru reyndar ágætir framan af en eftir að Freddie Ljungberg kom Svíum á bragðið 32. mínútu var eins og þeim félli allur ketill í eld. Svíum tókst reyndar ekki að innsigla sigur sinn fyrr en tæplega hálftíma eftir mark Ljungbergs. Þá litu tvö mörk dagsins ljós á rétt rúmri mínútu - Henrik Larsson skoraði með glæsilegum skalla á 57. mínútu og á þeirri 58. setti hann boltann inn af stuttu færi eftir snarpa sókn. Eftir þetta var spurningin aðeins hversu mörg mörkin yrðu. Zlatan Ibrahimovic bætti við því fjórða úr vítaspyrnu á 78. mínútu og lýsir það vel óeigingirni Larssons að heimta ekki að fá að taka vítið og fullkomna þrennuna. Á 90. mínútu var svo komið að Marcus Allback að setja punktinn yfir i-ið með fallegu skoti og glæsilegur sigur Svía því staðreynd og liðið lítur óneitanlega vel út.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×