Sport

Del Bosque hafnaði Real

Vicente del Bosque hefur sagt frá því að áður en hann samdi við Besiktas í Tyrklandi til næstu tveggja ára á dögunum hafi Real Madrid boðið honum að gerast aðstoðarþjálfari hjá félaginu. „Mér var boðin staða hjá Real Madrid en ekki sem aðalþjálfari. Ég get ekki verið aðstoðarþjálfari svo ég hafnaði tilboðinu,“ sagði del Bosque um leið og hann skrifaði undir margra milljóna dollara samning við Besiktas. Hinn fimmtíu og þriggja ára gamli del Bosque hefur verið atvinnulaus eftir að Real Madrid ákvað að endurnýja ekki samning hans við félagið á síðasta ári en hann hafði verið stjórnvölinn hjá stórliðinu frá árinu 1999. Undir stjórn hans varð Real Madrid meðal annars tvisvar sinnum sigurvegari í Meistaradeild Evrópu og sömuleiðis tvisvar í spænsku deildakeppninni. Í stað Del Bosque réð Real Madrid Portúgalann Carlos Queiroz en hann var látinn taka pokann sinn fyrir skömmu. Del Bosque tekur við af Rúmenanum Mircea Lucescu sem sagði upp störfum eftir tveggja ára veru hjá Besiktas en undir hans stjórn varð liðið tyrkneskur meistari í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×