Lífið

Íhugar að leggja skóna á hilluna

"Kosningarnar í Bandaríkjunum eru efstar í huga mér núna. Það verður spennandi að sjá hvor leiðir þar," segir Sunna Gestsdóttir, frjálsíþróttakona í fremstu röð: "Það virðist sem flestir Evrópubúar vilji fá annan forseta en Ameríkaninn virðist ekki vera á sama máli." Sunna flutti í haust frá Blönduósi í Kópavog. Hún æfir frjálsar í íþróttahúsinu Fífunni og segir helsta kostinn þann að nú taki það hana einungis nokkrar mínútur að fara á æfingar. Hún keyrði áður milli Blönduóss og Sauðárkróks til æfinga: "Það er munur að vera fjórar mínútur á æfingu heldur en fjörutíu. Þetta er allt miklu auðveldara núna." Sunna stendur á krossgötum. Hún leitar styrktaraðila til að halda sér meðal þeirra bestu: "Ef ég fæ styrktaraðila held ég áfram að stefna upp á við en ef ég fæ enga þá er ég jafnvel að huga að því að setja skóna á hilluna og einbeita mér að mínu námi." Sunna tók hlé á sálfræðinámi sínu árið 1999: "Ég fór í barneignarfrí og flutti svo til útlanda. Þannig að ég er að taka upp þráðinn aftur. Ég hef tekið nokkur fög svona í sjálftilbúnu fjarnámi til að halda mér aðeins gangandi. En núna hef ég ákveðið að setjast á skólabekk." Sunna æfir með félaginu Breiðabliki: "Ég æfi með frænku minni, Sigurbjörgu Ólafsdóttur. Við höfum góðan stuðning hvor af annarri. Það er gott að hafa einhvern svipaðan og maður er sjálfur þannig að maður sé ekki einn að hlaupa á undan eða eftir strákunum." Næsta mót Sunnu er innanhússmót í janúar. Þau koma svo koll af kolli og gangi vel að útvega styrk stefnir hún á Evrópumeistaramótið í mars: "Ég bíð eftir að sjá lágmörkin og hvort maður eigi að setja stefnuna þangað."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.