Sport

Tveggja marka forusta KR í súginn

KR-ingar naga sig væntanlega í handarbökin eftir að hafa misst tveggja marka forystu niður í 2-2 jafntefli í leiknum gegn írska liðinu Shelbourne í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni meistaradeildar Evrópu í gærkvöld. KR-ingar höfðu leikinn í hendi sér um miðbik síðari hálfleiks en féllu of aftarlega og komu leikmönnum Shelbourne inn í leikinn sem þurftu aðeins tíu síðustu mínúturnar til að jafna leikinn, 2–2. Willum Þór Þórsson, þjálfari KR-inga, ákvað að treysta á reynsluna í leiknum gegn Shelbourne í gærkvöld. Hann tók framherjann unga Kjartan Henry Finnbogason út úr liðinu og setti Arnar Gunnlaugsson, sem var meiddur í síðasta leik gegn Fylki, inn í hans stað. Auk þess sem kom Sigurvin Ólafsson inn á miðjuna í stað Kristins Hafliðasonar sem er meiddur. KR–ingar byrjuðu leikinn ágætlega og fengu tvö fyrstu færi leiksins. Fyrst átti Sigurvin skalla rétt framhjá á 9. mínútu og á 18. mínútu skaut síðan Sigmundur Kristjánsson rétt fram hjá marki Shelbourne. KR-ingar réðu nokkuð ferðinni í fyrri hálfleik án þess þó að skapa sér verulega góð marktækifæri. Írska liðið verður seint sakað um að hafa lagt ofuráherslu á sóknarleikinn í fyrri hálfleik, aðeins einu sinni náðu þeir að skapa smá usla fyrir framan mark KR. KR-ingar fengu óskabyrjun í síðari hálfleik þegar Arnar Jón Sigurgeirsson kom þeim yfir á 47. mínútu. Hann fiskaði aukaspyrnu af harðfylgi rétt við vítateiginn, Arnar Gunnlaugsson renndi boltanum til hans þar sem hann stóð á vítateigshorninu hægra megin og þrumaði boltanum í fjærhornið – glæsilegt mark. KR-ingar kættust enn frekar sjö mínútum síðar þegar Sigurvin Ólafsson bætti við öðru marki. Arnar Gunnlaugsson var þá aftur á ferðinni með aukaspyrnu og þurfti Sigurvin ekki að gera annað en að ýta boltanum yfir línuna á fjærstöng. Fátt virtist geta komið í veg fyrir sigur KR-inga en eftir að hafa haft góð tök á leiknum duttu þeir aftar á völlinn og leikmenn Shelbourne komust meira inn í leikinn. Það átti eftir að reynast KR-ingum dýrkeypt því á síðustu tíu mínútunum hleyptu Íslandsmeistararnir inn tveimur mörkum. Alan Moore minnkaði muninn á 81. mínútu þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir sofandi vörn KR-inga, skaut en Kristján varði en Morre fékk boltann aftur og skoraði. Fimm mínútum síðar jafnaði írska liðið metin þegar Kristján Örn Sigurðsson varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark. David Crawley gaf boltann fyrir og Kristján, sem ætlaði að hreinsa, hitti boltann ekki og sendi hann glæsilega í netið óverjandi fyrir Kristján Finnbogason, markvörð KR-inga. KR-ingar geta sjálfum sér um kennt að hafa misst forystuna niður og þeirra bíður erfitt verkefni á Írlandi í næstu viku. KR-Shelbourne 2-2 1–0 Arnar Jón Sigurgeirsson (47.) 2–0 Sigurvin Ólafsson (54.) 2–1 Alan Moore (81.) 2–2 Kristján Sigurðsson, sjálfsmark (86.) Dómarinn Peter Vervecken, Belgíu slakur Bestur á vellinum Petr Podzemsky KR Tölfræðin Skot (á mark) 9–10 (4–5) Horn 2–5 Aukaspyrnur fengnar 17–28 Rangstöður 1–7 Mjög góðir Petr Podzemsky KR, Kristján Örn Sigurðsson KR og Arnar Jón Sigurgeirsson KR Góðir Ágúst Gylfason KR og Gunnar Einarsson KR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×