Innlent

5 milljónir allt of lág upphæð

Vinstri grænir segja fimm milljónir, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita til hjálparstarfsins á hamfarasvæðunum, allt of litla upphæð, miðað við að þetta séu einhverjar mestu hörmungar sögunnar. Þeir skora á stjórnvöld að veita minnst þrjú hundruð milljónum króna til hjálparstarfsins. Vinstri hreyfingin grænt framboð telur einboðið að Íslendingar leggi með myndarlegum hætti sitt af mörkum til hjálpastarfs og síðan uppbyggingar á flóðasvæðunum í Suðaustur-Asíu. Flokkurinn segir Íslendinga þekkja af eigin raun þær fórnir sem sambúð við óblíð náttúruöfl geti kostað. Þingflokkurinn hvetur til þverpólitískrar samstöðu um að nú þegar verði ákveðin aukafjárveiting upp á að minnsta kosti 300 milljónir króna, sem renni til hjálparstarfs og uppbyggingar á svæðunum. Fulltrúum Vinstri grænna í fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd hefur verið falið að taka málið upp á þeim vettvangi og telur eðlilegt að Alþingi sjálft fjalli um og afgreiði mál af þessari stærðargráðu. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segir að með tilliti til þess að hærri fjárhæðum hafi verið eytt í önnur verkefni, sé rétt að senda nú skilaboð og taka myndarlega þátt í fjármögnun uppbyggingarstarfs. Hann telur eðlilegt að Alþingi sjálft komi að málinu og þverpólitísk samstaða ætti að nást um það. Steingrímur segir þær 5 milljónir sem hið opinbera hefur lýst yfir að lagðar verði í verkefnið allt of lága upphæð, enda sé það tæpast eðlilegt að fjárhæðin sem ríkið leggi til sé ekki nema brot af því sem safnist í söfnunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×