Sport

Samuel Eto´o ber af

Kamerúninn Samuel Eto´o, leikmaður Barcelona, er besti afríski leikmaðurinn í Evrópuboltanum að mati Spánverja en þarlend könnun um þetta var birt í vikunni. Þóttu 74 prósentum kappinn hafa staðið sig best enda leiktíðin verið frábær hjá liðinu meðan stórstjörnur á borð við Ronaldinho, Deco og Xavi hjálpa til. Þann stuðning hafði hann ekki hjá Mallorca, þar sem hann var áður, en gerði engu að síður góða hluti í hinni rauðu treyju eyjarskeggja. Didier Drogba hjá Chelsea hlaut fimmtán prósent atkvæða og lenti í öðru sæti, Benni McCarthy hjá Celta Vigo náði því þriðja og Jay-Jay Okocha hjá Bolton varð fjórði. Spánverjarnir þekkja eðlilega minna til Okocha en Frónbúar og miðað við frammistöðu hans í vetur á hann að minnsta kosti skilið þriðja sætið, ef ekki annað, enda Drogba ekki enn sýnt sínar bestu hliðar með Chelsea eins og hann gerði reglulega með Marseille. Engu að síður leikur enginn vafi á að Eto´o á heiðurinn fyllilega skilinn enda markahæstur í spænsku deildinni eins og sakir standa og hefur átt marga stórleikina eins og gegn Real Madrid fyrir skemmstu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×