Sport

KR upp í fjórða sætið

KR-ingar skutust upp í fjórða sæti Landsbankadeildarinnar eftir ótrúlegan lokakafla gegn Víkingum í Víkinni í gærkvöld. KR-ingar, sem höfðu ekki unnið leik síðan 21. júní, tryggðu sér sigurinn þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma en þá skoraði Arnar Gunnlaugsson, sem hafði komið inn á sem varamaður, sigurmark liðsins og tryggði því dýrmætan sigur, 2-1. Víkingar þurftu hins vegar að sætta sig við sitt fyrsta tap í sex leikjum, tap sem þeir geta sjálfum sér um kennt því þeir voru betri aðilinn lengst af og hefðu átt að klára leikinn áður en KR-ingar jöfnuðu. Fyrri hálfleikur var jafn og lítið um færi en það dró til tíðinda á 58. mínútu. Þá missti Kristján Örn Sigurðsson, varnarmaður KR-inga, boltann og Egill Atlason þakkaði fyrir sig og þrumaði boltanum í mark KR-inga. Eftir markið sóttu Víkingar linnulaust og áttu meðal annars skot í slá en það voru þó KR-ingar sem jöfnuðu gegn gangi leiksins rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok. Framherjinn ungi Kjartan Henry Finnbogason skoraði þá með góðu skoti sem Martin Trancik í marki Víkings réði ekki við. Þegar áhorfendur voru farnir að búa sig undir jafntefli og komið var fram yfir venjulegan leiktíma dúkkaði Arnar Gunnlaugsson hins vegar upp. Hann fékk frábæra hælsendingu frá Kjartani Henry, afgreiddi boltann í net Víkings af miklu öryggi og tryggði KR þrjú dýrmæt stig. Víkingur-KR 1-2 1–0 Egill Atlason 58. 1–1 Kjartan Henry Finnbogason 74. 1–2 Arnar Gunnlaugsson 90. Dómarinn Garðar Örn Hinriksson,  í meðallagi Bestur á vellinum Kjartan Henry Finnbogason KR Tölfræðin Skot (á mark) 12–17 (7–3) Horn 6–12 Aukaspyrnur fengnar 13–19 Rangstöður 4–0 Mjög góðir Kjartan Henry Finnbogason KR og  Arnar Gunnlaugsson KR Góðir Daníel Hjaltason Víkingi, Egill Atlason Víkingi, Kári Árnason Víkingi, Viktor Bjarki Arnarsson Víkingi, Ágúst Gylfason KR, Jökull Elísabetarson KR og Kristján Finnbogason KR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×