Innlent

Hlunnfarnir um milljarð

Bergur Ágústsson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum telur að fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafi orðið af að minnsta kosti fjögur hundruð milljónum króna á síðustu tveimur til þremur árum vegna sértækra aðgerða í sjávarútvegi. Sé litið lengra aftur er upphæðin yfir einum milljarði. Að sögn Bergs hafa margvíslegar ráðstafanir í sjávarútvegi einkum bitnað á þeim byggðarlögum þar sem sjávarútvegur byggist á aflamarksbátum í kvótakerfinu. "Þetta er hrein og bein mismunun í garð Vestmannaeyja," segir Bergur. Hann telur að sé litið lengra en tvö ár aftur í tímann hafi kostnaður af sérstökum aðgerðum valdið milljarða tekjuskaða fyrir Vestmannaeyjar. Bergur nefnir sérstaklega er svokallað útflutningsálag á ferskfiski. Ef skip flytja til útlanda ferskan fisk frekar en til hafnar á Íslanndi þá dragast tíu prósent aukalega frá kvóta viðkomandi skips. "Ég sé bara engin rök fyrir þessu að einu eða neinu leyti. Þetta hefur komið afskaplega illa fyrir okkur Eyjamenn," segir Bergur. Hann segir þessa reglu bitna á þeim sem starfa í ferskfisksútflutningi og útilokar ekki að slík mismununun kunni að brjóta í bága við reglur Evrópska efnahagssvæðisins. Þá segir hann að tilflutningur fiskveiðiheimilda frá aflamarksskipum, einkum til smábáta, bitni mjög á Vestmannaeyjum. "Þetta bitnar á stöðum sem hafa spjarað sig. Eins og landsmenn vita þá eru Eyjarnar byggðar upp á sjávarútvegi og ekki í svo mörg önnur hús að vernda. Menn hafa gert þetta af miklum þrótti og miklum myndarskap og það virðist vera þannig að menn séu að draga úr okkur tennurnar með þessum aðgerðum og draga máttinn úr grunnstoðum okkar byggðarlags. Það get ég ekki sætt mig við," segir Bergur Ágústsson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Hann segir að bæjaryfirvöld hyggi á aðgerðir til að bregðast við þeim niðurstöðum sem bæjarstjóri hefur komist að.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×