Sport

Thompson hættur hjá Liverpool

Phil Thompson hefur lokið keppni hjá Liverpool. Ákvörðunin kemur í kjölfarið á ráðningu Rafaels Benitez sem nýs framkvæmdastjóra hjá Liverpool. Hinn fimmtíu ára Thompson hefur verið hægri hönd Gerards Houlliers, fyrrum framkvæmdastjóra félagsins, allt frá því að Fransmaðurinn tók alfarið við stjórninni á Anfield í nóvember 1998. Saga Thompsons og Liverpool nær þó mun lengra aftur í tímann en hann var afar farsæll leikmaður með liðinu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Með Liverpool á hann að baka meira en fimm hundruð leiki og titlarnir sem liðið rakaði saman á þeim tíma voru ófáir og er hann með sigursælustu leikmönnum Liverpool frá upphafi. Stjórnarformaður Liverpool, Rick Parry, þakkaði Thompson unnin störf: "Hann hefur gert frábæra hluti fyrir félagið og hann fer frá okkur með bestu kveðjur í farteskinu. Með nýjum mönnum koma nýir siðir og brotthvarf Thompsons var sameiginleg niðurstaða stjórnar og hans og við skiljum í góðu," sagði Rick Parry.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×