Sport

Frasarnir óspart notaðir

Leikmenn Portúgala eru orðnir ansi klókir í að koma sér undan erfiðum spurningum fréttamanna, við litlar vinsældir þeirra eins og við mátti búast. Leiða má líkur að því að þessi varfærni Portúgala í tilsvörum sé tilkomin vegna neikvæðra ummæla frá Luis Figo vegna þeirrar ákvörðunar landsliðsþjálfarans Luis Felipe Scolari að velja brasilíska Portúgalann Deco í liðið, sem óneitanlega gróf undan liðsandanum hjá Portúgölum. Önnur lið hafa einnig farið flatt á því að hafa uppi stórkarlaleg ummæli og hafa Króatar, Hollendingar, Ítalir og Rússar einna helst sopið seyðið af því. Nú er búið að taka fyrir allt slíkt hjá Portúgölum. Á hverjum degi mæta tveir leikmenn Portúgala á blaðamannafund og bjóða upp á sömu svörin aftur og aftur, sama hver spurningin er. Skipta má svörum þeirra niður í fjóra hluta. Fyrst nefna þeir að það séu 23 leikmenn í hópnum sem sigra eða tapa án tillits til þess hvaða 11 leikmenn eru í byrjunarliðinu. Í öðru lagi er enginn öruggur með sæti í byrjunarliðinu. Í þriðja lagi, dómgæslan skiptir ekki sköpum og í fjórða lagi, úrslitin ráðast inni á vellinum. Talandi um frasa! Markvörðurinn Ricardo er gott dæmi um þetta en á blaðamanafundi á föstudaginn talaði hann í hálftíma án þess þó að segja nokkuð af viti: "Það er góður andi í hópnum og vonandi gengur okkur vel," sagði Ricardo meðal annars og var þetta með öflugustu sprengjunum sem hann lét falla á fundinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×