Sport

Breyttir tímar hjá Spánverjum

Spánverjar mæta til leiks gegn Portúgal á sunnudaginn með þá staðreynd á bakinu að þeim hefur gengið illa gegn gestgjöfum á stórmótum undanfarin ár. Spánverjar mega ekki tapa leiknum því þá er ansi líklegt að þeir komist ekki áfram og leikmenn liðsins segjast ætla að brjóta þau álög sem hafa verið á liðinu. Spánverjar duttu út fyrir Englendingum á EM 1996 í Englandi í átta liða úrslitum mótsins og í HM fyrir tveimur árum tapaði liðið fyrir Suður-Kóreu. Báðir leikirnir enduðu með tárum fyrir Spánverjana því þeir voru betri aðilinn og fannst þeir vera sviknir af dómurum. Sagan er hins vegar klárlega með Spánverjum því Portúgalar hafa ekki unnið þá síðan 1981 og aldrei unnið þá í leikjum í keppni, gert tvö jafntefli og tapað þremur. Portúgalar þurfa að vinna leikinn á sunnudaginn til að komast áfram og spænski vængmaðurinn Vicente sagði að þeim yrði ekki kápan úr því klæðinu. "Við þurfum ekki að hræðast Portúgalana og svona tölfræði [að Spánverjum gangi illa gegn gestgjöfum] er til þess að sigrast á. Það skiptir ekki máli þótt þeir séu á heimavelli því við munum fá stuðning frá okkar fólki," sagði Vicente.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×