Sport

Króatar hvíla menn gegn Frökkum

Króatar leggja litla áherslu á leikinn gegn Frökkum sem er nú að hefjast á Evrópumótinu í Portúgal en lykilmenn liðsins eru hvíldir í leiknum. Króatar leggja þess í stað ofurkapp á leik sinn við Englendinga í síðustu umferð. Króatar virðast hafa lagt upp með ákveðna áætlun á EM. Liðið virðist ekki fara eftir gamla frasanum, að fara í hvern leik til að sigra. Liðið reyndi lítið til að ná sigri gegn Sviss þrátt fyrir að vera einum leikmanni fleiri og nú er búið að leggja á borðið markmiðin fyrir leikina tvö sem eftir eru, gegn Englendingum og Frökkum. "Við komum til með að hvíla nokkra leikmenn í leiknum gegn Frakklandi. Markmið okkar er að ná jafntefli gegn Frökkum og nokkrir leikmenn sem voru í byrjunarliðinu gegn Sviss verða örugglega ekki með í þeim leik," sagði aðstoðarþjálfara Króata, Drazen Ladic, en vildi þó ekki nefna nein nöfn. "Við viljum hafa lið okkar eins sterkt og mögulegt er á móti Englendingum enda verður það leikur upp á líf og dauða fyrir okkur. Það lið sem nær sigri í þeim leik fylgir Frökkum áfram upp úr riðlinum og með okkar sterkasta lið getum við alveg sigrað Englendinga," sagði Drazen Ladic enn fremur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×