Sport

Ætla sér titilinn á Akureyri

Fyrirliði FH-inga, Heimir Guðjónsson, var ánægður eftir leik og hafði þetta að segja í stuttu spjalli við Fréttablaðið. „Leikur okkar var góður fyrstu sextíu mínúturnar en svo gáfum við eftir og hleyptum Frömurum óþarflega mikið inn í leikinn. Hins vegar var sigurinn mjög sanngjarn að mínu mati, við fengum fullt, fullt af dauðafærum í leiknum og ég held að sigurinn hafi verið síst of stór. Okkur nægir jafntefli í lokaumferðinni gegn KA á Akureyri en ég fullyrði að við förum ekki í þann leik með það að markmiði að ná jafntefli. Við höldum áfram að spila sóknarbolta enda er engin ástæða til að breyta leik okkar, við viljum spila sóknarbolta og munum halda því áfram. Hins vegar er það deginum ljósara að leikurinn gegn KA verður virkilega erfiður, þeir gefa ekkert eftir frekar en venjulega og eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Það er þó alveg kristaltært að við ætlum okkur að taka titilinn á Akureyri,“ sagði Heimir en hann skoraði mark í leiknum sem var dæmt af vegna rangstöðu og var sá dómur umdeildur. Heimir skorar ekki mark á hverjum degi, lætur sér yfirleitt nægja að leggja þau upp og hann var eðlilega frekar ósáttur með að markið skyldi ekki fá að standa. „Það er ár og öld síðan ég skoraði síðast og þessi dómur var vafasamur og ég er auðvitað hundfúll með hann. En aðalmálið var þó sigurinn og yfir honum gleðjumst við FH-ingar.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×