Sport

Maggi Þóris enginn heimadómari

Víkingum tókst ekki að landa heimasigri gegn Fram í fyrrakvöld þrátt fyrir stórskotahríð að marki Safamýrarliðsins í seinni hálfleik. Ástæðan var kannski sú að dómari leiksins var Keflavíkingurinn Magnús Þórisson en hann hefur ekki reynst heimaliðunum vel það sem af er í Landsbankadeild karla. Magnús var í Víkinni að dæma sinn sjötta leik í deildinni í sumar og heimaliðunum hefur aldrei tekist að vinna í þessum sex leikjum. Fjórum sinnum hafa leikirnir endað með jafntefli og tvisvar hafa útiliðin farið með sigur af hólmi. Magnús er einn af níu dómurum í deildinni en heimasigrar hafa orðið hjá öllum hinum átta dómurum deildarinnar. Hins vegar hafa útiliðin aldrei tekið með sér öll þrjú stigin þegar Garðar Örn Hinriksson og Jóhannes Valgeirsson sjá um dómgæslu. Það er þó ekki að sjá á tölfræðinni að Magnús dæmi á móti heimaliðunum en þau hafa fengið fjórum fleiri aukaspyrnur og einu spjaldi fleira en útiliðin í þessum leikjum. Þau lið sem hafa verið á heimavelli þegar Magnús hefur flautað eru Fram (tap), Grindavík (tap), ÍA, Víkingur, KA og ÍBV en leikir þeirra fjögurra síðastnefndu enduðu með jafntefli. Útiliðin voru fyrst til að skora í öllum sex leikjunum. Tölfræði Magnúsar Þórissonar í sumar: Leikir 6 Heimsigrar 0 Jafntefli 4 Útisigrar 2 Aukaspyrnur dæmdar 226 (37,7) Gul spjöld 27 (4,5) Rauð spjöld 2 Víti dæmd 1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×