Innlent

Fjallað um hlaup í bók Ómars

Í bók Ómars Ragnarssonar, Kárahnjúkar með og á móti, er fjallað um svokölluð hamfarahlaup á svæðinu en þeim fylgja miklir vatnavextir í Jöklu. Skiptar skoðanir eru á því hvort stíflurnar á svæðinu standist slík áhlaup. Eftir vatnavexti í síðustu viku hefur varnarstíflan við Kárahnjúka verið hækkuð um ellefu metra, til að taka við flóðum í Jökulsá á Dal. Rætt er um flóð í ánni í bók Ómars þar sem sjónarmið bæði þeirra sem eru mótfallnir virkjuninni er rakin sem og þeirra sem eru henni hlynntir. Þar sem sjónarmið virkjunarsinna er flutt er bent á að í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum sé niðurstaðan sú að sáralítil hætta sé á stórfelldu hamfarahlaupi, enda séu ekki þær gosstöðvar undir Brúarjökli sem valdið gætu sams konar hlaupum og koma til dæmis úr Grímsvötnum. Vitað sé að við framhlaup Brúarjökuls geti vatnsmagn aukist tímabundið í Jöklu, en við hönnun stíflnanna sé gert ráð fyrir því að þær standist slíka vatnavexti. Virkjuninni megi líkja við hús sem er byggt á bjargi og bifast ekki þótt stormar blási og steypiregn komi að ofan. Í mótrökum segir hins vegar að í ljós muni koma hvort ekki sé teflt á tæpt vað vegna sannkallaðra hamfarahlaupa, sem reynt sé að hylma yfir að geti átt sér stað. Jafnvel séu til kunnáttumenn sem telji sig sjá merki um slík hlaup við ána sem ekki hafi orðið vegna framskriðs jökulsins. Eldvirknisvæðið undir Vatnajökli sé nógu stórt til þess að hlaupa hamfaraflóðum niður í bæði Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum. Afleiðingarnar af því að Kárahnjúkastífla brysti yrðu geigvænlegar og ættu sér enga hliðstæðu á Íslandi. Í því sambandi er minnt á að menn töldu sig hafa bægt allri áhættu frá með smíði risaskipsins Títanik, sem ekki átti að geta sokkið, en sökk samt. Slysið hefði verið svo óskaplegt af því að fleytan var svo stór, og það sé Kárahnjúkastífla líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×