Sport

Fylkismenn ósáttir

Knattspyrnumennirnir Sævar Þór Gíslason og Þórhallur Dan Jóhannsson eru hættir að leika með Fylki eins og við sögðum frá í gær. Ekki náðist samkomulag um nýjan samning. Forráðamenn Fylkis eru allt annað en ánægðir með yfirlýsingar leikmannanna í fjölmiðlum í dag. Brotthvarf þeirra félaga frá Fylki hefur vakið töluverða athygli. Þeir hafa verið lykilmenn hjá Árbæjarliðinu undanfarin ár. Þórhallur sagði í samtali við fjölmiðla í dag að stjórn Fylkis hefði boðið honum samning sem hann hefði engan veginn getað sætt sig og því hefði hann lagt fram gagntilboð. Ásgeir Ásgeirsson, formaður meistaraflokksráðs, sagði í samtali við íþróttadeildina í dag að þetta væri rangt. Þórhallur hefði ekki lagt fram gagntilboð og hefði ekki mætt á fund á laugardag þar sem ræða átti samningamál. Hann hefði slitið viðræðum við þá. Ásgeir sagði enn fremur að leikmönnunum hefði verið boðinn svipaður samningur og þeir voru með. Sævar Þór Gíslason samþykkti launalið hans á laugardag en snerist hugur á sunnudag og fór fram á 33 prósenta hækkun á grunnlaunum. "Við gátum alls ekki sætt okkur við það," sagði Ásgeir. Áhorfendum í Árbænum fækkaði um 36 prósent í sumar en Fylkir hafnaði í fjórða sæti deildarinnar. "Við látum ekki einstaka leikmenn stjórna því hvernig við rekum deildina. Menn verða að vera raunsæir og líta í eigin barm og taka mið af gengi liðsins hverju sinni," sagði Ásgeir Ásgeirsson, formaður meistaraflokksráðs Fylkis, að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×